Stjórn Brims samþykkir samninga um kaup á tveimur sjávarútvegsfyrirtækjum
Stjórn Brims samþykkti á fundi sínum í dag samninga um kaup á tveimur sjávarútvegsfyrirtækjum í Hafnarfirði, Fiskvinnslunni Kambi og Grábrók. Tilkynnt var um samning þennan 21. október s.l. Viðskiptin eru háð samþykki hluthafafundar Brims, Samkeppniseftirlitsins og eftir atvikum annarra eftirlitsaðila. Boðað verður til hluthafafundar í Brimi hf. þann 12. desember n.k.Fiskvinnslan Kambur gerir út krókabátinn Kristján HF 100 sem var smíðaður í Trefjum hf. í Hafnarfirði á síðasta ári og er búinn öllum nýjasta tækjabúnaði til veiða og aflameðferðar. Honum fylgir um 2.000 tonna krókaaflamark að mestu í þorski. Þá rekur fyrirtækið tæknivædda fiskvinnslu í eigin húsnæði við Óseyrarbraut í Hafnarfirði sem er búin margvíslegum hátæknibúnaði m.a. nýrri vinnslulínu og vatnsskurðarvél frá Völku hf. sem var tekin í notkun á síðasta ári. Kaupverðið nemur 2.3 milljörðum króna og verður greitt að hluta með hlutabréfum í Brimi hf. sem eru í eigu félagsins og nema um 1% af heildarhlutafé Brims að verðmæti um 835 milljónir króna. Grábrók ehf. gerir út krókabátinn Steinunni HF 108 sem var smíðaður árið 2007. Honum fylgir um 850 tonna krókaflamark að mestu í þorski. Kaupverðið nemur 772 milljónum króna. Nettó vaxtaberandi skuldir félaganna eru um 4,5 milljarðar.Tilgangur kaupanna er að styrkja Brim sem alhliða fyrirtæki í sjávarútvegi. Félagið bætir nú við sig þorskveiðiheimildum, tæknivæddum vinnslueiningum og mannauð sem gerir félagið betur í stakk búið til að takast á við erlenda samkeppni í vinnslu sjávarafurða. Með þessum viðskiptum fer Brim yfir lögbundið kvótaþak í krókaaflamarki og hefur félagið lögum samkvæmt 6 mánuði til að gera ráðstafanir sem koma félaginu undir það þak.