Skeljungur hf.: Stjórn Skeljungs hf. hefur tekið ákvörðun um að meta framtíðarkosti eignarhalds á P/F Magn, dótturfélagi Skeljungs í Færeyjum
Stjórn Skeljungs hf. hefur tekið ákvörðun um að meta framtíðarkosti eignarhalds á P/F Magn, dótturfélagi Skeljungs í Færeyjum. Í því felst að skoða betur innra skipulag P/F Magn og meta hvort Skeljungur vilji fara í ytri eða innri vöxt, kaupa nýjar einingar og þar með stækka rekstur Magn, eða fara í sölu á fyrirtækinu, að hluta eða öllu leyti.
Fyrirtækjaráðgjöf Kviku banka hf. er ráðgjafi Skeljungs.
P/F Magn rekur 11 smásölu- og bensínstöðvar víðs vegar um Færeyjar auk þess að reka tvær birgðastöðvar og dreifa eldsneyti til fyrirtækja, verktaka og sjávarútvegs. Magn er leiðandi í sölu á eldsneyti til húshitunar en í Færeyjum er mikill meirihluti fasteigna hitaður upp með olíu. Eftir kaup Magns á félaginu P/F Demich, sem sérhæfir sig í umhverfisvænum húshitunarlausnum, mun Magn geta boðið upp á heildarlausnir í þjónustu tengdri húshitun, óháð því hvaða orkugjafa viðskiptavinir kjósa að nota.
Heildartekjur P/F Magn vegna rekstrarársins 2020 námu 15.560 milljónum króna og heildartekjur samstæðunnar voru 41.203 milljónir króna. EBITDA P/F Magn á árinu 2020 nam 1.509 milljónum króna en EBITDA samstæðunnar nam 2.676 milljónum króna.
Gera má ráð fyrir frekari upplýsingum á næstu mánuðum.
Nánari upplýsingar veitir Árni Pétur Jónsson, forstjóri, fjarfestar@skeljungur.is
www.skeljungur.is
https://www.linkedin.com/company/skeljungur-hf/