Ríkissjóður gefur út skuldabréf í evrum á 0% vöxtum

Ríkissjóður Íslands gaf í dag út skuldabréf að fjárhæð 750 milljónir evra, jafnvirði um 117 milljarða króna. Skuldabréfin bera 0% fasta vexti og voru gefin út til 7 ára á ávöxtunarkröfunni 0,117%.Fjárfestar sýndu útgáfunni mikinn áhuga og nam eftirspurn tæplega 3,5 milljörðum evra eða rúmlega fjórfaldri fjárhæð útgáfunnar. Fjárfestahópurinn samanstendur af bönkum, tryggingafélögum og öðrum fagfjárfestum, aðallega frá Norður-Evrópu. Umsjón útgáfunnar var í höndum Citibank, Barclays og Deutsche Bank.Í útboðsferlinu bötnuðu kjör ríkissjóðs um 12 punkta frá fyrstu verðleiðsögn. Fjárfestahópurinn taldi vel yfir 150 aðila. „Útgáfan nú er í samræmi við stefnu í lánamálum, en aukinni fjárþörf ríkissjóðs á næstu árum verður að hluta til mætt með erlendri lántöku eða með því að hagnýta gjaldeyriseign ríkissjóðs í Seðlabanka Íslands. Markaðsaðstæður eru sérlega hagstæðar um þessar mundir eins og kjör ríkissjóðs nú bera með sér, ” segir Bjarni Benediktsson.