Nova Klúbburinn hf. birtir uppgjör annars ársfjórðungs 2024
Traustur rekstur í krefjandi umhverfi
Helstu niðurstöður á öðrum ársfjórðungi:
- Heildartekjur voru 3.228 m.kr. á öðrum ársfjórðungi 2024 og standa í stað.
- Þjónustutekjur námu samtals 2.519 m.kr. og vaxa um 3,6% á milli ára.
- EBITDA nam 961 m.kr. samanborið við 973 m.kr. á sama tímabili á fyrra ári, EBITDA hlutfallið var 29,8% á fjórðungnum samanborið við 30,3% á fyrra ári.
- Hagnaður annars ársfjórðungs var 108 m.kr.
- Handbært fé frá rekstri á fjórðungnum er 536 m.kr.
- Hrein fjármagnsgjöld á fjórðungnum nema 264 m.kr. og lækka um 7,0% frá fyrra ári.
- Eiginfjárhlutfall var 40,2% í lok fjórðungsins og eigið fé nam samtals 9.375 m.kr.
- Viðskiptavinum fjölgar á árinu, bæði í Flakk- og Fastneti.
Margrét Tryggvadóttir, skemmtana- og forstjóri Nova:
„Nú þegar árið er hálfnað er gott að líta yfir stöðuna. Reksturinn er traustur. Heildartekjur eru svipaðar og á síðasta ári, en þegar við kíkjum baksviðs sjáum við að Nova heldur áfram að styrkja sig inn í framtíðina, sem er einmitt það sem við stefnum alltaf að. Vörusalan hefur verið að dragast saman í krefjandi umhverfi, sem hefur þó ekki áhrif á rekstrarhagnað. Þjónustutekjurnar aukast á móti og viðskiptavinunum fjölgar.
Fjárfesting í innviðauppbyggingu er okkur mikilvæg þar sem öflugir innviðir styrkja samkeppnisstöðu okkar. Þannig getum við fjölgað viðskiptavinum um allt land á sama tíma og viðskiptavinir eru öruggir, ánægðir og í góðu sambandi. Gott samband er jafnvel enn mikilvægara þar sem fáir eru á ferli. Við höfum haldið áfram uppbyggingu 5G senda um landið bæði til að styrkja núverandi kerfi og bæta við nýjum stöðum til að fækka dauðum blettum í flakkneti. Alls höfum við fjárfest fyrir rúmlega 800 milljónir í innviðauppbyggingu á þessu ári. Við hjá Nova höfum líka fagnað og tekið þátt í samstarfi um uppbyggingu í flakknetinu, en þar eru mikil tækifæri til hagræðingar með því að samnýta innviði.
Við sjáum einnig tækifæri í betri nýtingu á opinberum fjármunum m.a í frekari uppbyggingu flakknets á strjálbýlustu stöðum landsins. Flakknet getur verið alveg sambærilegt við ljósleiðaratengingar og í raun er skynsamlegra að leggjast í þá uppbyggingu, sem er hagkvæmari, gengur mun hraðar fyrir sig og tryggir um leið flakknetssamband á viðkomandi svæðum.
Tæknin er hins vegar ekki markmið í sjálfu sér heldur leið til að einfalda og njóta lífsins, við höldum því áfram að leggja áherslu á geðræktina og fríðindaklúbbinn FyrirÞig. Við hvöttum m.a. til símalausra samverustunda með Busltónleikum og fríum sundferðum í allt sumar. Viðskiptavinir sem njóta lífsins í góðu sambandi eru ánægðir viðskiptavinir og það er það mikilvægasta sem við í Nova eigum. Við horfum með mikilli eftirvæntingu til síðari hluta ársins.”
Kynningarfundur fyrir markaðsaðila og fjárfesta vegna uppgjörsins verður haldinn á morgun, föstudaginn 23. ágúst, kl. 8:30, hjá Nova, Lágmúla 9 á 4. hæð. Margrét Tryggvadóttir, skemmtana- & forstjóri, ásamt Þórhalli Jóhannssyni, fjármálastjóra, kynna uppgjörið og svara fyrirspurnum. Boðið verður uppá beint streymi sem hægt er að nálgast ásamt kynningarefni á heimasíðu Nova, https://www.nova.is/fjarfestar. Hægt er að senda inn spurningar á fjarfestatengsl@nova.is
Nánari upplýsingar um uppgjörið veita:
Margrét Tryggvadóttir, skemmtana- & forstjóri, margret@nova.is, s. 770 1070
Þórhallur Jóhannsson, fjármálastjóri, thorhallurj@nova.is, s. 770 1090
Attachments