EIMSKIP: Upplýsingar varðandi afkomu fyrsta ársfjórðungs
Samkvæmt stjórnendauppgjöri fyrir janúar og febrúar ásamt áætlun fyrir mars, sem nú liggur fyrir, lítur út fyrir að EBITDA á fyrsta ársfjórðungi 2021 verði á bilinu 13,9 til 14,9 milljónir evra samanborið við 9,3 milljónir evra á sama ársfjórðungi síðasta árs. Að teknu tilliti til væntra afskrifta má gera ráð fyrir að EBIT fjórðungsins verði á bilinu 2,2 til 3,2 milljónir evra samanborið við neikvætt EBIT að fjárhæð 1,6 milljónir evra á fyrsta ársfjórðungi síðasta árs.
Reksturinn gekk almennt ágætlega á fjórðungnum þrátt fyrir krefjandi aðstæður á þeim mörkuðum sem félagið starfar á og hagræðingaraðgerðir síðasta árs halda áfram að skila sér.
Þrátt fyrir að framangreindar upplýsingar sýni umtalsverða hækkun á rauntölum úr rekstri milli tímabila þá er hún innan marka afkomuspár ársins 2021 sem er á bilinu 68 til 77 milljónir evra. Þá var EBITDA á fyrsta ársfjórðungi síðasta árs undir væntingum eins og kynnt hefur verið.
Vinna við uppgjör fyrsta ársfjórðung stendur yfir og getur afkoman tekið breytingum þar til henni er lokið.
Eimskip birtir uppgjör fyrsta ársfjórðungs 2021 eftir lokun markaða þriðjudaginn 11. maí.
Nánari upplýsingar veitir Edda Rut Björnsdóttir, framkvæmdastjóri Mannauðs- og samskiptasviðs í síma 825-3399 eða á investors@eimskip.is.