Eimskip: Ákvörðun um framkvæmd endurkaupaáætlunar
Stjórn Eimskips tók í dag ákvörðun um framkvæmd endurkaupaáætlunar, samkvæmt heimild í grein 11.2 í samþykktum félagsins sem samþykktar voru á hluthafafundi Eimskips þann 24. júlí 2018 í þeim tilgangi að lækka útgefið hlutafé félagsins.Heimild er til að kaupa hlutabréf í félaginu í 18 mánuði frá hluthafafundinum með þeim fyrirvara að félagið ásamt dótturfélögum þess megi einungis eiga mest 10% hlutafjár þess. Endurkaupin munu að hámarki nema 3.125.000 hluta eða um 1,6% af útgefnum hlutum í félaginu, á kaupverði sem má þó ekki fara yfir kr. 500.000.000,- að markaðsvirði. Gert er ráð fyrir að endurkaup samkvæmt áætluninni hefjist mánudaginn 2. desember og mun áætlunin vera í gildi fram til 24. janúar 2020, nema skilyrði um hámarkskaup verði uppfyllt fyrir þann tíma.Gengi á hlut skal ekki vera hærra en hæsta gengi af eftirfarandi; lokagengi síðasta viðskiptadags, síðustu óháðu viðskipta eða í hæsta fyrirliggjandi óháða kauptilboði á þeim markaði sem viðskipti eru átt með hlutabréf í Eimskip. Hámarksmagn hvers viðskiptadags er fjórðungur af meðaltali daglegra viðskipta með hlutabréf félagsins á aðalmarkaði í nóvember 2019. Hámarksfjöldi leyfilegra hluta á hverjum viðskiptadegi verður því 69.185 frá og með 2. desember 2019.Endurkaupaáætlun verður framkvæmd af Íslandsbanka sem tekur allar viðskiptaákvarðanir er varða kaup á hlutum og tímasetningu kaupanna, óháð félaginu. Framkvæmd endurkaupaáætlunarinnar verður í samræmi við lög um hlutafélög nr. 2/1995 og viðauka við reglugerð um innherjaupplýsingar og markaðssvik nr. 630/2005. Viðskipti með eigin hluti í samræmi við endurkaupaáætlunina verða tilkynnt eigi síðar en við lok sjöunda viðskiptadags eftir að viðskiptin fara fram.Í dag á Eimskip 3.038.079 hluti að nafnverði í félaginu.Nánari upplýsingar veitir Edda Rut Björnsdóttir, markaðs- og samskiptastjóri í síma 825-3399 eða investors@eimskip.is