Breytingar á stórnendateymi PLAY samhliða auknum umsvifum
Breytingar á stórnendateymi PLAY samhliða auknum umsvifum
Sonja Arnórsdóttir hefur verið ráðin framkvæmdastjóri sölu- og markaðssviðs PLAY. Sonja tekur við sem framkvæmdastjóri sviðsins af Georgi Haraldssyni sem verður framkvæmdastjóri upplýsingatæknisviðs. Sonja er með BS-gráðu í fjármálaverkfræði og hefur starfað við tekjustýringu hjá flugfélögum síðastliðin tíu ár. Hún starfaði sem sérfræðingur í tekjustýringu hjá WOW air þar sem hún leiddi tíu manna teymi og þá hefur hún starfað sem forstöðumaður tekjustýringar- og sölu hjá PLAY frá 2019.
Sonja mun nú bera ábyrgð á öllum sölu- og markaðsmálum hjá PLAY.
„Ég er virkilega spennt og ánægð með það tækifæri að fá að stýra öflugu sölu- og markaðsteymi PLAY. Síðustu tíu ár hef ég komið að uppbyggingu tveggja flugfélaga á Íslandi og tekist á við margvísleg krefjandi verkefni sem fylgja þessum geira. Að vinna við tekjustýringu hefur gefið mér góða innsýn og skilning á flestum deildum flugfélaga og þá sérstaklega í sölu- og markaðsmálum. Þá er ég með brennandi áhuga á þeim málum og reynslan mun nýtast vel við að byggja sviðið upp. PLAY hefur vaxið mikið á síðustu mánuðum og það er nóg fram undan,“ segir Sonja Arnórsdóttir.
„Það gleður mig mikið að bjóða Sonju velkomna í framkvæmdastjórn PLAY. Sonja hefur verið sannkölluð rokkstjarna innan PLAY sem forstöðumaður tekjustýringar- og sölu og tímabært að hún fái meiri ábyrgð enda frábær leiðtogi hér á ferð. Ég hlakka til að sjá hana leiða sölu-markaðsstarf PLAY á sama tíma og það er virkilega ánægjulegt að Georg geti tekið upplýsingatæknimálin fastari tökum með alla sína reynslu og þekkingu á því sviði. Það er síðan annar gleðilegur áfangi að nú séu jöfn kynjahlutföll í framkvæmdastjórn PLAY, þrjár konur og þrír karlar með mér,“ segir Birgir Jónsson.
Georg Haraldsson verður nú framkvæmdastjóri upplýsingatæknisviðs PLAY en áður var hann framkvæmdastjóri sölu- og markaðssvið, auk upplýsingatæknisviðs. Vegna aukinna umsvifa PLAY mun félagið setja enn meiri áherslu á upplýsingatækni og stafræna þjónustu. Leitast verður við að hámarka sjálfvirknivæðingu, sjálfsafgreiðslu og ánægju viðskiptavina að þessu leyti. Georg mun leiða þá þróun áfram fyrir félagið en nú með meiri fókus en áður. Georg hefur starfað um árabil í störfum tengdum upplýsingatækni og stafrænni þróun, meðal annars hjá Völku, Iceland Express, Dohop og Póstinum. Georg er tölvunarfræðingur frá Háskólanum í Reykjavík og er einnig með meistaragráðu í alþjóðaviðskiptum frá sama skóla og IE Business School.
Attachment