Ársreikningur Vestmannaeyjabæjar fyrir árið 2022
Rekstarafkoma Vestmannaeyjabæjar jákvæð árið 2022
Ársreikningur Vestmannaeyjabæjar fyrir árið 2022 verður tekinn til fyrri umræðu á fundi bæjarstjórnar Vestmannaeyja í dag. Ársreikningurinn sýnir glögglega sterka stöðu bæjarsjóðs, jákvæða rekstrarafkomu, góða eignastöðu og litlar skuldir.
Heildarrekstrartekjur samstæðu Vestmannaeyjabæjar voru 8.013 m.kr. og rekstrargjöld 7.453 m.kr.
Rekstrarafkoma samstæðunnar (A og B hluta) var jákvæð um rúmar 26 m.kr. Fyrir afskriftir og fjármagnsliði var rekstrarafkoma A-hluta bæjarsjóðs jákvæð um 225 m.kr. Að teknu tilliti til afskrifta og fjármagnsliða var afkoma A-hluta neikvæð um 128 m.kr. Heildarrekstrartekjur samstæðu Vestmannaeyjabæjar voru 8.013 m.kr. og rekstrargjöld 7.453 m.kr.
Það er einkum tveir þættir sem skýra neikvæða afkomu A-hlutans í heild: Annars vegar gjaldfærslu vegna lífeyrisskuldbindinga en gert var ráð fyrir og neikvæðri gangvirðisbreytingu af verðbréfasafni Vestmannaeyjabæjar.
Heildareignir samstæðu Vestmannaeyjabæjar námu rúmum 16.211 m.kr. í árslok 2022. Þar af stóð handbært fé og skammtímafjárfesting í rúmum 2.458 m.kr. Allar fjárfestingar bæjarins á árinu eru fjármagnaðar með handbæru fé (þ.e. eigið fé, ekki lántaka) og námu fjárfestingar samstæðu Vestmannaeyjabæjar um 1.280 m.kr. á árinu.
Markvisst hefur verið unnið að því síðustu ár að greiða niður skuldir bæjarsjóðs og er skuldastaða Vestmannaeyjabæjar við lánastofnanir mjög góð. Jafnframt eru skuldaviðmið, sem oft er vísað til í umræðu um fjármál sveitarfélaga, lágt og töluvert lægra en flestra annarra sveitarfélaga en það nemur 18,8% í árslok 2022.
Það eru einkum óvissuþættir og illviðráðanlegar forsendur sem skýra frávik frá fjárhagsáætlun Vestmannaeyjabæjar, svo sem breytingar á lífeyrisskuldbindingu, vaxtaumhverfi og kostnaðarsöm slipptaka Herjólfs, sem ekki var hægt að sjá fyrir.
Ársreikningurinn endurspeglar vel fjárhagslegan styrk sveitarfélagsins sem er vel í stakk búið að standa undir framtíðaruppbygginu í sveitarfélaginu. Fjármálastjórnun bæjarins er fagleg, vel ígrunduð og framtíðarhorfur samfélagsins bjartar.
Attachment