Ársreikningur Norðurþings og stofnana fyrir árið 2024
Norðurþing
Reikningsskil
Ársreikningur Norðurþings og stofnana fyrir árið 2024
Byggðarráð Norðurþings mun samþykkja ársreikning Norðurþings og stofnana sveitarfélagsins fyrir árið 2024 á fundi sínum þann 30. apríl 2025. Fyrri umræða um ársreikninginn fór fram í sveitarstjórn þann 3. apríl sl.
Samkvæmt lögum ber að fjalla um ársreikninginn á tveimur fundum í sveitarstjórn og fer síðari umræða fram þann 8. maí 2025, þar sem staðfesting sveitarstjórnar á ársreikningnum er fyrirhuguð.
Komi ekki fram mikilvægar viðbótarupplýsingar, sem geta haft áhrif á gerð ársreikningsins og/eða niðurstöður hans við afgreiðslu og samþykkt sveitarstjórnar munu endurskoðendur árita ársreikninginn með fyrirvaralausri áritun og sveitarstjórn staðfesta ársreikninginn í fyrirliggjandi mynd.
Rekstrarafkoma samstæðu Norðurþings
Rekstrartekjur sveitarfélagsins á árinu námu 6.825 milljónum króna samkvæmt samanteknum rekstrarreikningi fyrir A og B hluta, en fjárhagsáætlun gerði ráð fyrir rekstrartekjum að fjárhæð 6.262 milljónum króna.
Rekstrartekjur A hluta námu 5.718 milljónum króna en fjárhagsáætlun gerði ráð fyrir rekstrartekjum að fjárhæð 5.306 milljónum króna.
Rekstrarniðurstaða sveitarfélagsins samkvæmt samanteknum rekstrarreikningi A og B hluta var jákvæð um 388 milljónir króna en samkvæmt fjárhagsáætlun var gert ráð fyrir 71 milljóna króna neikvæðri rekstrarniðurstöðu.
Rekstrarniðurstaða A hluta er jákvæð um 232 milljónir króna en fjárhagsáætlun gerði ráð fyrir jákvæðri rekstrarniðurstöðu að fjárhæð 83 milljónir króna.
Eigið fé sveitarfélagsins í árslok nam 4.211 milljónum króna samkvæmt efnahagsreikningi, en þar af var eigið fé A hluta um 2.233 milljónir króna.
Laun og launatengd gjöld á árinu námu alls 3.806 milljónum króna en starfsmannafjöldi hjá sveitarfélaginu nam 320 stöðugildum í árslok.
Íbúafjöldi Norðurþings í árslok 2024 var 3.114 og fjölgað um 33 frá fyrra ári.
Skuldahlutfall samstæðu samkvæmt núgildandi reglum um fjárhagsleg viðmið sveitarfélaga fór úr 65% árið 2023 niður í 63% í árslok 2024.
Húsavík, 3. apríl 2025: Nánari upplýsingar veitir Bergþór Bjarnason, fjármálastjóri og staðgengill sveitarstjóra Norðurþings í síma 464-6100.