Árshlutareikningur Sláturfélag Suðurlands jan-jún 2025
Árshlutareikningur Sláturfélag Suðurlands jan. – jún. 2025
Reykjavík, 21. ágúst 2025.
Fréttatilkynning frá Sláturfélagi Suðurlands svf.
Afkoma á fyrri árshelmingi 2025
- Tekjur á fyrri árshelmingi 10.131 m.kr. og hækka um 9,4% milli ára
- 694 m.kr. hagnaður á fyrri árshelmingi ársins en 613 m.kr. hagnaður árið áður
- EBITDA afkoma var 1.159 m.kr. en 1.103 m.kr. árið áður
- Eigið fé 8.880 m.kr. í lok júní og eiginfjárhlutfall 60%
Árshlutareikningurinn samanstendur af árshlutareikningi Sláturfélags Suðurlands svf. og dótturfélögum þess, Reykjagarði hf. og Hollt og gott ehf.
Hagnaður samstæðu Sláturfélags Suðurlands á tímabilinu janúar til júní 2025 var 694 m.kr. Á sama tímabili árið áður var 613 m.kr. hagnaður. Eigið fé Sláturfélagsins er 8.880 m.kr. í lok júní.
Rekstrartekjur samstæðu Sláturfélags Suðurlands voru 10.131 m.kr. á fyrri árshelmingi ársins 2025, en 9.262 m.kr. á sama tíma árið áður og hækka því um tæp 9,4%. Aðrar tekjur voru 88 m.kr. en 61 m.kr. árið áður.
Vöru- og umbúðanotkun var 5.249 m.kr. en 4.779 m.kr. árið áður. Launakostnaður var 2.278 m.kr. og hækkaði um tæp 8,0%, annar rekstrarkostnaður var 1.531 m.kr. og hækkaði um tæp 15,1% og afskriftir voru 279 m.kr. og hækkuðu um rúm 1,2%. Rekstrarhagnaður án fjármunatekna og fjármagnsgjalda var 881 m.kr., en 828 m.kr. árið áður. Hagnaður fyrir fjármagnsgjöld og afskriftir (EBITDA) var 1.159 m.kr. en var 1.103 m.kr. á sama tíma í fyrra.
Fjármagnsgjöld umfram fjármunatekjur voru 17 m.kr., en voru 68 m.kr., á sama tímabili í fyrra. Hlutdeild í afkomu hlutdeildarfélaga var neikvæð um 9,6 m.kr. Reiknaður tekjuskattur nam 161 m.kr., en 147 m.kr. árið áður. Hagnaður af rekstri tímabilsins var 694 m.kr. en 613 m.kr. á sama tímabili árið áður.
Veltufé frá rekstri án vaxta og skatta var 1.157 m.kr. á fyrri árshelmingi ársins 2025, samanborið við 1.106 m.kr. fyrir sama tímabil árið 2024. Heildareignir Sláturfélagsins 30. júní voru 14.696 m.kr. og eiginfjárhlutfall 60% en 56% árið áður. Veltufjárhlutfall var 2,8 í lok júní árið 2025, en 2,2 árið áður.
Fjárfest var í varanlegum rekstrarfjármunum á fyrri árshelmingi 2025 fyrir 412 m.kr. en 321 m.kr. á sama tímabili árið áður. Fjárfest var í fasteignum fyrir 85 m.kr. og vélbúnaði og bifreiðum fyrir 327 m.kr.
Samkvæmt samþykkt aðalfundar félagsins í mars 2025 var greiddur 14,77% arður af B-deild stofnsjóðs alls 29,5 m.kr. og reiknaðir 14,77% vextir á A-deild stofnsjóðs alls 64,0 m.kr.
Stjórn og forstjóri staðfestu árshlutareikning samstæðu Sláturfélagsins fyrir tímabilið 1. janúar – 30. júní 2025 með undirritun á stjórnarfundi í dag. Árshlutareikningur samstæðunnar er með könnunaráritun endurskoðenda.
Árshlutareikningurinn er aðgengilegur á heimasíðu Sláturfélags suðurlands svf.: www.ss.is
Sláturfélagið er skráð á First North markaðinn hjá NASDAQ. Sláturfélagið birtir upplýsingar um afkomu á sex mánaða fresti. Ráðgert er að birta afkomu ársins 2025 þann 19. febrúar 2026.
Staða og horfur
Fjárhagsstaða Sláturfélagsins er traust með 60% eiginfjárhlutfall og veltufjárhlutfall 2,8. Langtímaskuldir í lok júní 2025 voru 1.997 m.kr. Næsta árs afborganir eru um 52 m.kr. en lán samstæðunnar eru til langs tíma með lága greiðslubyrði. Lausafjárstaða félagsins er einnig góð en handbært fé var í lok júní 2,4 milljarðar kr.
Afkoma Sláturfélagsins batnar milli ára um 80 m.kr. Velta samstæðunnar jókst á milli ára um 9,4% eða 869 m.kr. Jákvæð áhrif á veltu má fyrst og fremst rekja til aukningar í tekjum af sölu kjötvara ásamt góðri aukningu í heildsölu.
Nokkur óvissa er framundan sem getur haft neikvæð áhrif á rekstur samstæðunnar á seinni árshelmingi. Óvissa er um gengisþróun og aðstæður á erlendum mörkuðum vegna þess óstöðugleika sem þar ríkir.
Sala á kjöti hefur gengið vel á árinu og birgðastaða kindakjöts í upphafi sláturtíðar verður lægri en í fyrra. Innflutningur á kjöti hefur neikvæð áhrif á afkomu afurðafélaga og dregur úr framleiðslu innanlands. Áfram verður unnið að því að aðlaga rekstur samstæðunnar að breyttu rekstrarumhverfi, m.a. með því að leggja áherslu á sérstöðu og gæði innlendrar framleiðslu.
Staða lykilvörumerkja félagsins í matvælaiðnaði er sterk og ímynd félagsins góð á markaði sem rennir stoðum undir frekari uppbyggingu á markaðsstöðu á komandi árum. Aukin vélvæðing og öflug vöruþróun hefur styrkt grundvöll félagsins sem öflugs aðila á kjötmarkaði.
Búvöruhluti innflutningsdeildar hefur byggst upp á undanförnum árum og er að þjónusta bændur með allar helstu rekstrarvörur. Áfram verða nýtt tækifæri til frekari vaxtar. Fækkun afurðastöðva í landinu er jákvæð og bætir nýtingu þeirra sem eftir standa og leiðir þar með til lækkunar á kostnaði.
Fjárhagsdagatal
19. febrúar 2026 Ársuppgjör 2025
20. mars 2026 Aðalfundur vegna ársins 2025
20. ágúst 2026 Árshlutauppgjör jan-jún 2026
18. febrúar 2027 Ársuppgjör 2026
19. mars 2027 Aðalfundur vegna ársins 2026
Frekari upplýsingar veita:
Steinþór Skúlason, forstjóri í síma 575 6000 – steinthor@ss.is
Sveinn Rafn Eiðsson, fjármálastjóri í síma 575 6000 – sveinnrafn@ss.is
Attachments