Alma íbúðafélag hf.: Árshlutareikningur 30.6.2025
Á fundi sínum í dag samþykkti stjórn Ölmu íbúðafélags hf. árshlutareikning samstæðunnar fyrir fyrri árshelming 2025.
Heildartekjur samstæðunnar námu 2.871 millj. kr., þar af voru leigutekjur 2.590 millj. kr. og aðrar rekstrartekjur 280 millj. kr. Rekstrarhagnaður fyrir matsbreytingu og afskriftir (EBITDA) nam 2.127 millj. kr. og hækkaði um 147 millj. kr. samanborið við sama tímabil í fyrra. Hagnaður tímabilsins nam 769 millj. kr.
Heildareignir samstæðunnar þann 30. júní 2025 námu 114.482 millj. kr., þar af voru fjárfestingareignir að andvirði 79.661 millj. kr. og skráð hlutabréf 4.627 millj. kr. Eigið fé í lok júní 2025 var 37.627 millj. kr.
Árið 2024 gerði Langisjór ehf., móðurfélag Ölmu íbúðafélags hf., yfirtökutilboð í Eik fasteignafélag hf. samkvæmt lögum nr. 108/2007 um yfirtökur og lauk því ferli 18. október 2024. Á meðal samstarfsaðila var Brimgarðar ehf., dótturfélag Ölmu íbúðafélags og er eignarhlutur samstæðu Ölmu í Eik nú í fyrsta skipti færður með hlutdeildaraðferð frá þeim tíma sem samstæðan eignaðist 20% hlutafjár í Eik. Bókfært verðmæti hlutar samstæðunnar í Eik nam í lok tímabilsins 10.857 millj. kr.
Ingólfur Árni Gunnarsson, framkvæmdastjóri Ölmu íbúðafélags hf.:
„Rekstur Ölmu íbúðafélags gekk vel á tímabilinu og eftirspurn eftir leiguhúsnæði hjá félaginu er áfram mikil. Félagið býr yfir sterkri lausafjárstöðu, traustum hópi viðskiptavina og stöðugri eftirspurn eftir þjónustu og hefur byggt upp þekkt vörumerki á íslenskum íbúðamarkaði.
Við héldum áfram að selja eignir sem ekki falla að fjárfestingastefnu félagsins. Á tímabilinu seldi félagið 25 íbúðir og keypti eina, en eignasafnið taldi í lok júní 1.003 íbúðir og 64 þúsund fermetra atvinnuhúsnæðis. Seinni hluta ársins mun Alma fá afhentar nýjar íbúðir á Heklureitnum. Eignirnar eru í samræmi við stefnu félagsins um vandaðar og vel staðsettar íbúðir sem eru nálægt almenningssamgöngum og helstu þjónustu í nærumhverfinu.
Við vinnum nú að því að einfalda rekstur samstæðunnar með samruna og sölu óvirkra félaga. Gert er ráð fyrir að þessu ferli ljúki á næstu mánuðum, en eftir það mun dótturfélögum í samstæðunni fækka úr tólf í sex.
Undanfarna mánuði höfum við lagt áherslu á að einfalda reksturinn, auka hagkvæmni og byggja upp trausta stöðu til framtíðar. Samhliða þessu höfum við sett sjálfbærni í forgang – bæði til að mæta væntingum leigjenda og fjárfesta og til að styrkja félagið til lengri tíma.“
Nánari upplýsingar veitir Ingólfur Árni Gunnarsson, framkvæmdastjóri, ingolfur@al.is.
Attachment