Hagar hf. endurnýja samning við Kviku banka hf. um viðskiptavakt
Hagar hf. hafa í dag endurnýjað samning við Kviku banka hf. um viðskiptavakt á hlutabréfum útgefnum af Högum í Kauphöll Íslands NASDAQ OMX Iceland. Eldri samningur er frá ágúst 2019.Kvika banki hf. skuldbindur sig til að setja fram dag hvern kaup- og sölutilboð í hlutabréf félagsins í viðskiptakerfi kauphallar. Fjárhæð kaup- og sölutilboða skal vera 400.000 að nafnvirði, en þó aldrei hærri en 30 milljónir að markaðsvirði, á gengi sem Kvika ákveður í hvert skipti. Verði tilboðum Kviku tekið skal Kvika setja fram annað tilboð innan 15 mínútna frá síðustu viðskiptum. Hámarksverðbil kaup- og sölutilboða skal vera 2,5%. Ef verðbreyting á hlutabréfum Haga innan dags nær 10% er Kviku heimilt að tvöfalda hámarksverðbil kaup- og sölutilboða tímabundið það sem eftir er dagsins. Hámarksfjárhæð heildarviðskipta dag hvern sem Kvika er skuldbundin til að eiga viðskipti með skv. samningnum skal samsvara kr. 100.000.000 að markaðsvirði.Samningurinn er ótímabundinn og gildir frá og með 27. nóvember 2019. Samningurinn er uppsegjanlegur af beggja hálfu með 14 daga fyrirvara.