Festi hf.: Breyting á samningum um viðskiptavakt með hlutabréf Festi hf.
Festi hf. hefur samþykkt breytingu á samningum um viðskiptavakt á eftirmarkaði með hlutabréf Festi við Arion banka hf. annars vegar og Íslandsbanka hf. hins vegar. Breytingin er tilkomin vegna innleiðingar á MiFID II sem tók gildi 1. september 2021 og þeirri breytingu á verðskrefum (e. tick size) hlutabréfa Festi sem verður í kjölfarið.
Samkvæmt báðum samningum var hámarksverðbil kaup- og sölutilboða 1,5%. Breytingin á báðum samningum felur í sér að verðbil kaup- og sölutilboða skuli nú ákvarðast með hliðsjón af verðskrefatöflu Kauphallarinnar eins og hún er hverju sinni þannig að verðbil verði sem næst 1,5% en þó ekki minna en 1,45%. Þó skal viðskiptavökum heimilt að fara tímabundið undir framangreint viðmið s.s. vegna aðstæðna sem skapast vegna verðskrefatöflu Kauphallarinnar.
Að auki voru gerðar eftirfarandi breytingar á samningum við báða bankana.
- Fjárhæð kaup- og sölutilboða, að nafnvirði, skal nú vera að lágmarki 100.000 kr. í stað 150.000 kr. áður.
- Ef verðbreyting innan viðskiptadags er umfram 5,0% er viðskiptavökum heimilt að tvöfalda hámarksverðbil milli kaup- og sölutilboða tímabundið þann daginn. Í fyrri samningi var miðað við 10% verðbreytingu.
Að öðru leyti en hér greinir eru samningarnir við Arion banka hf. og Íslandsbanka hf. frá 10. mars 2020 og 7. janúar 2020 óbreyttir.
Nánari upplýsingar veitir Magnús Kr. Ingason, framkvæmdastjóri fjármálasviðs Festi, mki@festi.is